Kaupfélag Borgfirðinga - Egilsholti 1, 310 Borgarnes - Sími 430 5500
Kaupfélag Borgfirðinga var stofnað 4. janúar 1904. Félagið var í upphafi rekið sem pöntunarfélag og sá þá um innkaup skamkvæmt fyrirfram gerðum pöntunum félagsmanna.
Félagið hóf rekstur söludeildar 1910 og var byggt hús yfir hana 1912. Húsið var kallað Salka og stendur nú við Skúlagötu 7. Árið 1916 var flutt í Englendingavík í Sjávarborg og þar var verslun félagsins til 1960 þegar flutt var í nýtt stórhýsi að Egilsgötu 11. Eftir að Borgarfjarðarbrúin kom til sögunar fluttist þungamiðja Borgarness til og ljóst varð að verslun og þjónusta félagsins þurfti að komast á nýjan stað sem væri í alfaraleið. Árið 1991 hóf Hyrnan starfsemi og hefur síðan verið helsta þjónustumiðstöð við ferðamenn við hringveginn. Árið 2000 var Hyrnutorg reist og voru dagvöruverslun og skrifstofur fluttar þangað í nóvember það ár. Endanlega flutti KB úr gamla bænum í Borgarnesi árið 2003 þegar byggt var nýtt hús yfir Byggingarvöruverslun félagsins og hún flutt að Egilsholti 2, við þjóðveginn norður úr bænum.
Framan af var félagið eingöngu í verslunarstarfsemi en 1931 tók félagið við rekstri sláturhúss í Borgarnesi og rekstri Mjallar sem varð MSB og hóf þar úrvinnslu mjólkur.
Mikil uppbygging var í Brákarey 1966 þegar nýtt sláturhús var tekið í notkun. Það hús var hið fullkomnasta í landinu og var hægt að slátra 2700 kindum á dag. Sama ár hófst rekstur kjötvinnslu.
Flutningastarfsemi var á vegum félagsins frá árinu 1943 og var gerður út floti flutningabíla sem sáu um flutninga félagsins og annarra á svæðinu. Var þar um að ræða vöruflutninga mest milli Reykjavíkur og Borgarness og mjólkurflutninga sem voru umtalsverðir. Flutningastarfsemi félagsins var seld Samskipum 1999 þegar félagið var sérgreint fyrst og fremst í verslun og þjónustu.
Upp úr 1990 fór rekstur félagsins að þyngjast og í framhaldinu urðu miklar breytingar á rekstri þess. Sláturhúsi og kjötvinnslu var breytt í sjálfstætt hlutafélag 1993, Afurðasalan í Borgarnesi hf sem síðar varð að tveimur félögum, Sláturfélagi Vesturlands og Borgarnes kjötvörum. Var þetta tilraun til þess að sameina hagsmunaðila, þ.e. félagið og bændur í þessum rekstri. Enduðu þessi félög sem hluti af Goða hf árið 2000, en það félag fór í þrot fljótlega eftir stofnun.
Miklar deilur urðu í héraðinu þegar samþykkt var að úrelda Mjólkursamlag félagsins, en vegna mikillar umframfjárfestingar í greininni var talið nauðsynlegt að minnka afkastagetu í mjólkuriðnaði. MSB hætti starfsemi um áramótin 1994-1995. KB hóf í samstarfi við aðra ýmsa iðnaðarstafsemi í Engjaáshúsinu sem gekk illa frá upphafi og var hætt fljótlega aftur.
Á aðalfundi félagsins vorið 2001 var samþykkt að heimila stjórn þess að breyta rekstrareiningum félagsins í hlutafélagsform og leita eftir samstarfi við aðra. Í upphafi árs 2002 tók síðan KB Borgarnesi ehf við öllum daglegum rekstri KB sem á eftir var eignarhaldsfélag. Á miðju ári 2004 var síðan gengið til samstarfs við Kf. Suðurnesja með því að sameina rekstur KB Borgarnesi ehf og Samkaupa hf.
Frá 2004 hefur rekstur félagsins verið þríþættur, rekstur verslunardeildar með rekstrarvörur fyrir bændur og aðra, samstarf við KSK með eignarhaldi á hlut í Samkaupum hf. og útleiga á fasteignum, bæði beint og óbeint með hlutafjáreign í Borgarlandi ehf.
Í bankahruninu 2008 tapaði félagið verulegum fjármunum vegna taps á hlutafé í sameiginlegu fjárfestingarfélagi KB og Sparisjóðs Mýrasýslu, Vesturlandi ehf. Þá hækkuðu lán félagsins mikið á árunum 2008-2009 bæði vegna verðbólguskots sem fylgdi hruninu og vegna gengistaps, en félagið var fjármagnað að hluta með erlendu lánsfé.
Á árinu 2011 var gert samkomulag við viðskiptabanka félagsins um sölu eigna sem skilaði verulegum söluhagnaði. Um leið gaf bankinn eftir hluta af skuldum og voru skuldir Kaupfélagsins þá endurfjármagnaðar til lengri tíma. Á eftir stóð KB nokkuð skuldsett en sæmilega rekstrarhæft. Eftir gengislánadóma árið 2013 kom í ljós að erlend lán sem félagið hafði verið með töldust ólögleg og í framhaldinu var félaginu endurgreiddur hluti skulda þess og lán þess lækkuð.
Haustið og veturinn 2013-2014 var unnið að nýrri stefnumótun fyrir félagið sem samþykkt var af stjórn og aðalfundarfulltrúm vorið 2014. Markmiðið nýrrar stefnu er að efla félagið til lengri tíma þannig að það verði aftur burðarás í atvinnulífi félagssvæðisins.
Stjórn Kaupfélags Borgfirðinga
Sigrún Halla Gísladóttir, stjórnarformaður
Hjalti Rósinkrans Benediktsson, varaformaður
Eggert Kjartansson, ritari
Dagný Sigurðardóttir, meðstjórnandi
Garðar Freyr Vilhjálmsson, meðstjórnandi